Jafnréttismál
ISAL leggur ríka áherslu á jafnrétti kynjanna og að hver starfsmaður sé metinn að verðleikum út frá hæfni, reynslu og menntun. Fyrirtækið starfar eftir jafnréttisáætlun sem ætlað er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum kynjanna. Á þetta við um rétt starfsmanna til starfa, kjara, aðstöðu, menntunar og setu í nefndum og ráðum.
Smelltu hér til að skoða jafnréttisáætlun ISAL.
Laus störf í öllum hópum standa báðum kynjum jafnt til boða, enda er ekkert í vinnuumhverfinu sem hamlar því að bæði kynin vinni tiltekin störf.
Þótt greinin hafi alla tíð þótt karllæg eru konur við störf um alla verksmiðjuna, hvort sem er í kerskálum, steypuskála, mötuneyti eða skrifstofum. Konur sýna flestum störfum áhuga og eru þær um og yfir helmingur sumarstarfsmanna sem ráðnir eru inn á hverju ári. Hlutfall kvenna í föstu starfsliði er enn aðeins um 20% þrátt fyrir að hafa mjakast upp á við á undanförnum árum. Sú tala er að okkar mati of lág, þótt svipaðar tölur megi finna í mörgum öðrum starfsgreinum.
Sjálfstæður réttur feðra til orlofs vegna fæðingar barns hefur haft mikil áhrif á fyrirtækið, enda heyrir það til undantekninga ef feður á vinnustaðnum nýta sér ekki þann rétt að fullu. Fyrirtækið hvetur þá einnig til þess, bæði almenna starfsmenn og stjórnendur, enda er það okkar skoðun að feðraorlofið geri karla að betri starfsmönnum. Mörg dæmi mætti nefna um duglega og kraftmikla starfsmenn sem komið hafa til baka úr feðraorlofinu jafn duglega og áður, en með mun meiri ábyrgðartilfinningu og jafnvel meiri öryggisvitund en fyrr. Það er ótvíræður kostur.