Fyrirtækið
Álverið í Straumsvík er rekið af Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. sem er hluti af Rio Tinto Alcan, einum stærsta álframleiðanda í heimi. Verksmiðjuheiti álversins er ISAL.
ISAL framleiðir hágæðaál í samræmi við óskir viðskiptavina. Fyrirtækið framleiðir fjölmargar málmblöndur í mismunandi stærðum, alls hátt í 200 mismunandi vörutegundir, sem eru fullunnar til völsunar. Álið úr Straumsvík er notað í ýmsar sérhæfðar vörutegundir, svo sem plötur fyrir byggingariðnað, prentplötur, lyfja- og snyrtivöruumbúðir og bifreiðar. Stærstu viðskiptavinir ISAL eru í Þýskalandi en fyrirtækið selur einnig ál til annarra landa.
Álframleiðsla krefst mikillar raforku. ISAL notar tæplega 3.000 gígawattstundir af raforku á ári, eða um 18% af þeirri raforku sem notuð er á Íslandi. Afköst fyrirtækisins í álframleiðslu eru um 190 þúsund tonn á ári.
ISAL er með vottuð gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001. Markvissar stöðugar umbætur eru jafnframt ein af meginstoðum fyrirtækisins, auk þess sem unnið er að því að innleiða aðferðafræði straumlínurekstrar.
Starfsleyfi Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. var gefið út af Umhverfisstofnun þann 7. nóvember 2005 og gildir til 1. nóvember 2020. Umhverfisstofnun er jafnframt eftirlitsaðili. Fyrirtækið fellur undir fyrirtækjaflokkinn 2.1 álframleiðsla, samkvæmt fylgiskjali með reglugerð um grænt bókhald.
Vissir þú að ..
- Hátæknilegur og flókinn búnaður stýrir öllu framleiðsluferli álversins.
- Meðallaun starfsmanna eru mun hærri en meðallaun í landinu.
- Við erum einn stærsti útflytjandi af vörum frá Íslandi.
- Starfsmenn eru um 450 talsins